Hverfið breyttist mikið eftir að gistiskýli fyrir ógæfumenn var opnað á Lindargötunni árið 2014. Ég geri ekki lítið úr starfseminni, hún er mikilvæg. Ég set hins vegar spurningarmerki við staðsetninguna. Gistiskýlið stendur við hliðina á stúdentagörðum og beint á móti barnaskóla. Öldrunarblokkirnar eru steinsnar frá og fjölmennasti „reitur“ miðborgarinnar hinum megin götunnar. Gistiskýlinu má vel finna nýjan stað.
sammála, viðvarandi vandamál á vitatorgi vegna þessa skýlis. menn að gera þarfir sínar í garðana hjá gamla fólkinu sem býr þar. margir sem þora hreinlega ekki út. hef sjálfur orðið vitni af og tilkynnt til lögreglu fjölda líkamsárása sem tengjast þessum hópi manna sem gista í skýlinu, ef það rúmar þá þ.e.a.s...
Pólskir ógæfumenn hafa haldið til á Vitatorgi (í næsta nágrenni við gistiskýlið) í langan tíma. Þeir sofa í gistiskýlinu og halda svo til á Vitatorgi á daginn. Þeir valda miklu ónæði, öskra, slást, æla, míga og jafnvel skíta þar. Að minnsta kosti tvisvar hefur sjúkrabíll komið vegna þess að búið var að misþyrma manni þarna. Eldri borgarar búa við Vitatorg og hafa bekkirnir líklega verið ætlaðir þeim. Efast samt um að þeir myndi þora að tilla sér þarna. Þetta ástand er algerlega óviðunandi.
Sæl Álfur og Eydís. Ég vísa í tölur frá lögreglunni máli mínu til stuðnings; hverfið breyttist mikið þegar gistiskýlið kom árið 2014. Það kann vel að vera að samlífið hafi gengið vel á Farsóttarreitnum - en kannski var það bara betri staðsetning. Hér er enginn að tala um að ógæfumennirnir séu „óæðri“. Og tilfærsla á gistiheimilinu þarf ekki að jafngilda „jaðarsetningu“. Ekki ef rétt er að því staðið. frh...
Einstaklingar sem nýta sér þjónustu gistiskýlisins eru fyrst og fremst fólk. Það að færa starfsemina í iðnaðarhverfi íjar að því að mennska þeirra sé óæðri. Hver vill eiga aðsetur í iðnaðarhverfi? Í stað þess að færa gistiskýlið ætti að auka við þjónustuna til þess að fólk neyðist ekki til að gera þarfir sínar í garða annarra.
Gistiskýli eru ekki mengandi starfsemi, heldur dvalarstaður fyrir fólk. Þau eiga heima í íbúðahverfi, þar sem fólkið sem nýtir sér þjónustuna er staðsett. Ég efa stórlega að nokkrum væri til gagns að ýta því fólki lengra frá öðru mannlífi.
Tek undir að starfsemin fellur ekki að svona þéttri íbúðabyggð. Íbúar eru búnir að læsa að sér og setja upp öryggismyndavélar. Það er ekki óskastaða ..
...frh. Eiríkur Ernir: Ég myndi ekki vilja nota orð eins og „mengandi starfsemi“ til þess að lýsa stöðunni. Enginn hefur enn tekið þannig til orða. Aftur: Það að færa starfsemina annað jafngildir ekki því, að verið sé að „ýta fólki frá öðru mannlífi“. Ekki ef rétt er að því staðið. Mögulega væri hægt að flytja gistiskýlið á lóðina hjá Landspítalanum. Þar væri hægt að hlúa almennilega að ógæfumönnunum þegar þeir slasa sig. - Það hlýtur að vera góður kostur.
1. Skv. gögnum lögreglu þrefölduðust „hegningalagabrot, sérrefsilagabrot og verkefni“ í hverfinu milli áranna 2013 og 2015. „Aðstoð við borgarana“ tífaldaðist. 2. Aldrei hefur fleiri verið vísað frá gistiskýlinu og undanfarin ár (sbr. fréttamiðla). Þessir menn finna sér næturstað í nærliggjandi görðum og bílakjöllurum. 3. Borgin segir að Lindargatan sé blönduð byggð og því passi gistiskýlið þar vel. Skilgreiningin „blönduð byggð“ er frá árinu 2003 og engan vegin lýsandi fyrir hverfið í dag.
Það að flytja starfsemina þangað sem færra fólk heldur til samsvarar því að fela vandamálið. Okkur líður illa við að sjá þetta fólk. Því það setur vandamálið svo nálægt okkur og við erum minnt á það að það er fólk sem hefur það alveg ömurlegt
Ég bý á Lindargötu 46a og það eru oft Rónar við innkeyrsluna hjá okkur um miðjan dag. Þeir eru með læti fyrir utan á kvöldin.
Aldraðir foreldrar mínir bjuggu til skamms tíma í þjónustuíbúð við Lindargötu/Vitatorgi. Ítrekað sáum við þessa ógæfumenn liggjandi í blóði sínu, pissandi og kúkandi úti á götu um hábjartan dag (við vorum síður á ferli þarna úti á kvöldin). Sjúkrabílar og lögregla voru oft kölluð til þegar mennirnir lágu þannig úti að ekki sást hvað var að, hvort þeir væru lífs eða liðnir. Sorglegt ástand blessaðra mannana en ekki bjóðandi þeim sem búa þarna í nágrenninu.
Áður fyrr bjuggum við fjölskyldan í Þingholtsstræti mitt á milli heimila fyrir útigangsmenn í Farsóttarhúsinu og svipuðu heimili fyrir konur á horni Þingholtsstrætis og Amtmannstígs. Öll þau ár man ég aldrei eftir ónæði frá þeim sem fengu að halla sér á þeim heimilum. Svo það er ólíku saman að jafna hvað svo sem veldur því.
Gistiskýlið þarf að víkja burt úr þessari íbúðagötu, bæði er það óþrifnaður og mikið ónæði af þessum skjólstæðingum. Fasteignaeigendur þurfa ítrekað að óska eftir aðstoð lögreglu við að fjarlægja þessa aðila úr híbýlum sínum. Öll fjölbýlishúsin við götuna hafa þurft eða þurfa að fjárfesta í öryggisbúnaði til að gæta að eigum sínum. Ekki er öruggt að leyfa börnum að vera einum á ferð þrátt fyrir að það sé leikskóli við götuna þá eru allir óttaslegnir við að hleypa börnum einum út
Í ljósi umfjöllunina um Gistiskýlið sem var á stöð 2, kvöldið 26 mars, vil ég segja að vandamálið sé meira að þetta húsnæði sé ekki nógu gott fyrir þetta fólk. Það ætti að athuga hvort að hægt væri finna aðra staðsetningu, þar sem boðið væri upp á sólarhringsgistingu, þar sem aðstaða værir fyrir námskeiðshald og meðferð. Það er ólíðandi ástand, á allan hátt, að óreglufólk séu látnir eyða deginum, hangandi á götum miðbæjar og drepast svo á stigagöngum eftir ofneyslu.
Sem nágrannar gistiheimilisins þá erum við fjölskyldan að bugast yfir endalausu áreiti og ónæði og þurfum núna að fara í kostnaðarsamar aðgerðir til að loka lóðinni með girðingu, vegna þess hversu algengt er þeir noti bakgarðin til að gera þarfir sínar. Auk þess er miður að horfa uppá skelfingar svip túristana okkar sem iðulega ganga frammhjá Gistiskýlinu á leið sinni frá Laugarveigi að Sólfarinu.Auk þess má geta þess að Vitatorgið er öllum íbúum og ferðamönnum gagnlaust vegna ónæðis.
Margar erlendar rannsóknir hafa sýnt fram á að úrræði eins og Gistiskýlið þurfa að vera staðsett þar sem þörfin er mest, sem í Reykjavík er miðbærinn. Það sem þarf að gera aftur á móti er að auka þjónustuna við einstaklingana. Það má til dæmis gera með því að opna dagsetur eða hafa Gistiskýlið opið allan sólarhringinn. Munum að mennirnir í Gistiskýlinu eru synir, feður og bræður einhverra og hafa ekki minni rétt til lífs og almennra mannréttinda en aðrir.
Ég bý við Farsóttarheimilið þar sem gistiskýlið var áður. Það samlífi gekk mjög vel. Hávaði var milli fjögur og fimm. Það var allt og sumt. Mér þykir málflutningur þeirra sem vilja færa skýlið litast af þröngsýni. Hefur eitthvert þeirra prófað að tala við skjólstæðinga gistiskýlisins?
Ég bjó í nokkur ár í húsinu beint á móti Gistiskýlinu þegar það var í Farsóttarhúsinu við Þingholtsstræti. Betri granna gat ég ekki hugsað mér. Ég þurfti ekki að fjárfesta í öryggisgæslu, því þeim var annt um að enginn blettur féllu á þá svo þeir vöktuðu húsið mitt vel. Aldrei var reynt að brjótast þar inn. Þökk sé „ógæfumönnunum", vinum mínum og öryggisvörðum 😀
This content is created by the open source Your Priorities citizen engagement platform designed by the non profit Citizens Foundation